154. löggjafarþing — 104. fundur,  30. apr. 2024.

Staðan og aðgerðir í loftslagsmálum.

[14:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa mikilvægu umræðu og ég tek undir það að tækifærin eru allt í kringum okkur á þessu fallega landi okkar og það væri óskynsamlegt annað en að nýta þau miklu tækifæri. Loftslagsmál og orkumál eru auðvitað nátengd fyrirbrigði. Það að við getum framleitt orku með umhverfisvænum hætti er auðvitað lykilatriði og þar erum við Íslendingar rík af auðlindum. Það þýðir auðvitað ekki að við ætlum að virkja hverja einustu lækjarsprænu því að sjálfsögðu viljum við líka vernda hluta af okkar náttúru. En við þurfum líka að horfa til annarra leiða til að framleiða orku en með vatnsaflsvirkjunum eða jarðvarmavirkjunum, eins mikilvægar og þær eru. Vindorka er líka mikilvægur og raunhæfur kostur, hv. þingmaður, og það væri ankannalegt ef við Íslendingar með vindinn okkar úti um allt myndum ekki nýta þá auðlind. Það er að fullu afturkræf virkjun þegar sett er upp vindorkuvirkjun og við sjáum hvað tækninni hefur fleygt mikið fram í þeim efnum. Það að nota sjávarföll er líka að verða raunhæfur möguleiki og við sjáum Færeyinga vinna eitthvað smávegis af sinni orku úr því og vonandi verður hægt að skala það upp innan tíðar og auðvitað ættum við Íslendingar að horfa til þess, nú eða birtu- eða sólarorku. Að sjálfsögðu getum við Íslendingar líka gert betur í því. Ég vil fagna skýrslu sem kom einmitt út í dag um þessa kosti og hvernig hægt er að vinna orku með öðrum kostum en þessum hefðbundnu vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Þannig að já, ég tek undir það að tækifæri okkar Íslendinga eru mikil og við eigum að nýta þau og við eigum að vera stolt af náttúruauðlindunum okkar og hugvitinu sem við höfum til að nýta þessa mikilvægu auðlind okkar.